Færsluflokkur: Bloggar
1.3.2009 | 20:45
Mpumalanga - staðurinn þar sem sólin kemur upp
Það er reynsla okkar hinna að þegar Kara er komin með Zebra fætur eru moskítóflugur í nánd. Ástæðan fyrir því er sú að moskítospreyið er algert eitur og leysir upp svörtu sokkabuxurnar þannig að hinar fallegustu rendur koma fram. Hugsar fram í tímann konan sú. Flugurnar eru mjög skæðar hérna og erum við mörg hver ansi bitin. Leiðangursstjórann grunar að flugurnar hafi dansað rumbu á maganum á honum miðað við munstrið sem kom fram.
Mandeladagurinn, Dagur hins frjálsa manns hófst á misjöfnum tíma hjá hópnum. Mama Masai hafði aldrei þessu vant sleppt ungunum lausum...Sumir náðu morgunmat og héldu áfram könnun sinni á eggjakökum álfunnar. Reyndust þær hálfgerð Barbei útgáfa, ekki þó bleikar á litinn heldur frekar til gerðar að seðja magalitla sveltisjúklinga. Aðrir sváfu af sér snæðinginn og mættu fílhressir við sundlaugina um hádegisbil. Sundlaugin og umhverfið við hótelið er frábært og virtist afslappelsið henta mannskapnum vel. Adam var þó ekki lengi í paradís. Vart var sólarvörnin (og flugnafælan hjá sumum) komin á kroppana alla en sólin mátti játa sig sigraða fyrir þungbúnum skýjum með tilheyrandi þrumum. Skunduðum við nú sem sönnum mörbúum sæmir í nærliggjandi mall og náðum þar inn eins og hundar dregnir af sundi, rigningin var slík. Enduðum kvöldið í ostum og hvítu í lekkeru boði á hótelinu og fórum snemma að sofa enda vakning eldsnemma á morgun.
Vorum sótt á hótelið kl hálf sex. Þegar gáð var til veðurs reyndust himnarnir vera að skvetta vel úr sér og var sem hellt úr fötu. Fararskjótin okkar var breyttur Hilux með tjaldþaki og hliðum og reyndist hann hvorki halda vatni né vindum. Aðbúnaður var því ekki upp á það besta en það skemmdi ekki stemmninguna í hópnum. Við vitum ekki hvað gerðist, hvort sprautað var hlátursgasi inn á herbergin hjá okkur um nóttina eða hvort svefngalsi hafi verið í hópnum en einhverja hluta vegna skemmtum við okkur afskaplega vel. Svo mikið var hlegið í ferðinni að sögumaður er sannfærður um strengi í magavöðvunum á morgun. Dýrin héldu sig í skjóli frá rigningunni og voru ekki mikið á ferðinni en engu að síður sáum við zebrahesta, flóðhesta, nashyrning, bavíanna, Impölur, villihunda, fíl, hrægamma að ógleymdri skjaldbökunni sem vakti mikla lukku. Borðuðum nestið okkar í skjóli frá rigningunni og vakti misjafna lukku þegar við uppgötvuðum að leðurblökur í tugatali héngu yfir okkur. Mörg gullkorn tengd veðri og aðstæðum fugu á leiðinni við mikla kátínu. Mættum Toyotu Yaris og spurði konana í framsætinu Have you seen any lions? svaraði Siggi þá um hæl no but we saw a turtle (á þeim tímapunkti var það þannig). Eitthvað komískt við það að leita að ljóni á Yaris...
Þótt rignt hafi eldi og brennistein þá erum við afar sátt við daginn í Kruger. Höldum reyndar að svæðið eigi meira inni sem við skoðum bara næst. Á morgun förum við héðan og til Zimbabe. Þar er Mugabe forseti að halda upp á afmælið sitt þrátt fyrir ýmsustu hörmungar sem geisa í landinu. Kannski verður okkur boðið í afmælið...reyndar ekki víst að við mætum!
Þangað til næst hafið það sem allra best og söknum ykkar allraFrábært að fá kveðjur frá ykkur gegnum bloggið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2009 | 17:57
Ferðalagið frá Höfðaborg til Mpumalanga
Við fengum þær fréttir áður en við lögðum af stað að heiman að Norza sem eru norsk-suður afrísk hjálparsamtök sem styðja fátæka á Höfðaborgarsvæðinu vantaði sængurföt og handklæði. Einnig vantaði Enza sem eru íslensk suður afrísk hjálparsamtök (sjá www.enza.is) tölvur. Við vorum svo heppin að fá gefins 400 kg af sængurfötum og handklæðum hjá Icelandair hótelunum sem Icelandair gefur hjálparsamtökunum. Einnig fluttum við hingað tölvur fyrir Enza. Það er því ánægjulegt að við getum gefið eitthvað lítilræði til baka til álfunnar. A&K fyrir tilstuðlan Tim Gibbons (farangursstjóra) og fleiri starfsmanna fyrirtækisins söfnuðu miklu magni af hækjum og hjálpartækjum sem þau gáfu í Eþíópíu. Eiga þeir miklar þakkir skilið fyrir þetta einkaframtak.
Við brottför frá Höfðaborg komum við farþegunum okkar á óvart með því að mæta í hefðbundum Icelandair einkennisfatnaði með stuðlabergi og skriðjöklum. Mamma Masai gaf okkur stelpunum einstaklega falleg armbönd sem við skörtuðum einnig á leiðinni. Flugið var stutt, einungis tveir tímar en ekkert var gefið eftir í þjónustunni og lekkerheitum. Komum snemma á hótel og höfðum það huggulegt við laugina. Hlökkum til að eiga dag hins frjálsa manns á morgun í anda Mandela. Danskóli Köru opnaði svo um kvöldið og er engin skortur á nýjum námskeiðum. .
Bloggar | Breytt 1.3.2009 kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2009 | 21:02
Flugið frá Mauritus til Höfðaborgar
Verðum að biðjast asökunar á pínu vitlausri röð en verðum því miður að kenna erfiðum aðstæðum um. Þessi færsla kemur að sjálfsögðu á undan næstu færslu þar sem maður þarf að fara frá A til B til að enda á C....
Mættum öll endurnærð og glöð í morgunmat. Kvöddum paradís sólar og sælu með tár á hvarmi en þó full tilhlökkunar. Höfðum heyrt að Höfðaborg mundi ekki valda okkur vonbrigðum. Búningar dagsins voru mjög svo einkennilegar buxur, þægilegar fram úr hófi og litríkir skokkar í stíl.Flugið gekk með ágætum, vel gert við gestina í mat og drykk. Kokteill dagsins var Tequila Sunrise borinn fram með volgristuðum hnetum. Allir mjög ánægðir. Captain Haddi snæddi glæsilegan hádegisverð í betri stofunni með þeim Nancy og hjónakornunum Mark og Chris. Er ekki ofsögum sagt að glettni og útgeislun okkar ágæta flugstjóra hafi heillað þá sambýlinga upp úr skónum. Ekki er laust við að kvenpeningurinn í áhöfninni finni fyrir örlítllli öfund. Skemmtilegur félagsskapur Hadda hafði þau áhrif að margumræddur flugstjóri sló enn og aftur í gegn í sama fluginu og nú hjá öllum farþegunum er hann flaug ógleymanlegt 20 mínútna útsýnisflug yfir Höfðaborg og nærsveitir.Allir fengu að sjá Table Mountain og Lionshead úr lofti og var ótrúlega fallegt að sjá hvernig fjöllin teygja sig upp yfir borgina.
Með hraða snigilsins gekk að koma vélinni á sinn stað eftir lendingu. Allir hjálpuðust að við að skipta á koddaverum, höfuðpúðum og gera klárt fyrir næsta flug. Enginn Afríkuhraði á þeim bænum. Áhöfnin sat löngu ferðbúin og beið eftir að vélin yrði færð á annað stæði á flugvellinum. Ekki leiddist þó kvenkostinum um borð þar sem starfsmaður á plani gladdi augun verulega. Þetta var óvenju fallegur og ólofaður Búi, ljós yfirlitum, bjarteygur, ljósgylltur á hörund, hár til klofsins og herðabreiður. Semsagt, náðum á hótel fjórum tímum eftir lendingu. MEIRA SiÐAR
Bloggar | Breytt 1.3.2009 kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2009 | 20:28
Suður Afríka - land andstæðna og sjö sólsetra
Staðsetning: Suður-Afríka er land í suðurhluta Afríku og nær yfir suðurodda álfunnar. Það á landamæri að Namibíu , Botsvana , Simbabve , Mósambík og Svasílandi . Lesótó er sjálfstætt ríki innan landamæra Suður-Afríku. Höfuðborg: Höfuðborgir Suður-Afríku eru þrjár, Höfðaborg (Cape Town), Pretoría og Bloemfotein Fólksfjöldi: Íbúar Suður-Afríku eru í kringum 48 milljónir. Af þeim eru tæplega 80% svartir, 9.2% hvítir, 8.9% litaðir ( coloured ) og 2.5% asískir . Um 80% íbúa eru kristnir (bæði mótmælendur og kaþólskir), islam eru um 1,5%, hindúar um 1,3%, gyðingar um 0,2%. Rúmlega 15% teljast ekki til ákveðinna trúahópa eða teljast trúlausir. Tungumál: 9 tungumál eru töluð í Suður-Afríku en það eru afríkanska , enska , súlúmál , xhosa , svasí , ndebele , suður-sótó , norður-sótó , tsonga , tsvana og venda.
Hófum daginn á staðgóðum morgunmat, omeletta a la carte. Erum að gera vísindalega könnun á eðliseiginleikum og gæðum eggjakaka í álfunni. Gengur ágætlega svo langt sem það nær. Vorum sótt af rútu og keyrð inn í vínhéruðin. Byrjuðum á vínbúgarði sem bauð upp á skoðunarferð um fagurt fornbílasafn....believe it or not. Voru þetta mjög vel varðveittir bílar sem spönnuðu tímabilið frá 1907 og til dagsins í dag. Það virðist vera mikil menning fyrir fornbílum í borginni og mikið lagt upp úr varðveislu þeirra. Fórum með golfbílum upp í hæðirnar þar sem við fengum kynningu á sögu vínframleiðslu í Suður-Afríku. Áhugaverð saga...
Sem sönnum ofdekruðum áhafnarmeðlimum sæmir vorum við leidd áfram. Allt skipulagt fyrirfram af fyrrverandi samstarfskonu okkar Ruth Gylfadóttur sem búsett er í Höfðaborg. Eftir skoðunarferð og vínsmökkun á vínbúgarði í eigu vinafólks Ruthar og Kolla mannsins hennar borðuðum við á frábærum veitingastað í yndislegu umhverfi. Náðum klukkustundar skoðunarferð um lítinn sætan bæ áður en við þáðum heimboð Ruthar og Kolla og sátum þar í góðu yfirlæti á fallegu heimili þeirra og drengjanna þeirra. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir hjálpina og heimboðið. Ætluðum að hitta á Mandala og ræða við hann um hin ýmsustu málefni ,frá aðskilnaðarstefnu til hjónabanda. Gafst ekki tími í það en tökum það í töku tvö.
Gefin var frjáls dagur á degi tvö í Höfðaborg. Þeir sem höfðu áhuga fóru og skoðuðu Góðravonahöfða en hinir kynntu grillið við laugina. Ferðin á höfðan var frábær. Skaginn var krossaður fram og tilbaka og einstök náttúrufegurð heillaði okkur upp úr skónum. Eigum sennilega öll eftir að koma hingað aftur. Í Simonstown skoðuðum við mörgæsir og fannst okkur sem við hefðum lent í miðri frímúrarasamkomu. Seinnipartinn var farið á markað og kíkt á kaffihús. Enduðum daginn á frábærum veitingastað við höfnina þar sem við fengum villibráð, steikur og sjávarrétti...hvert öðru betra. Hluti strákanna keypti hnífasett til að hluta í sundur eðalsteikur á Íslandi. Ekki reyndust hnífapörin öll í sama lit og varð að skilja hluta þeirra eftir, kom sér þá vel að eiga góða að, hér 13000 km í burtu frá Íslandi,fengum við Ruth til að redda málum þannig að hægt væri að borða í sama, lekkera lit. Ótrulegt hvað það getur verið hjálplegt að hitta Íslendinga á ferðum sínum um heimsins höf. Áttum góðan tíma hér í Höfðaborg. Þökkum góðar kveðjur að heiman og mikinn áhuga. Viljum koma því á framfæri að í þessari áhöfn erum við með frábærustu kokka í heimi, færustu freyjurnar, fallegustu flugmennin og fjölhæfasta flugvirkjann...mörg fffff...en við erum vön því.
Bloggar | Breytt 28.2.2009 kl. 05:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2009 | 18:14
Mark Twain skrifaði “Heaven was copied after Mauritius”
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2009 | 12:20
Kilimanjaro - Mauritius
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2009 | 12:18
Jambo Jambo
Jambo jambo
Ferð okkar um sléttur Afríku hélt áfram í dag. Mikill spenningur fyrir deginum og hvort við yrðum jafn heppin og í gær. Flestir búnir að græja sig upp með Safarí hatta, með myndavélarnar á maganum og eins og klippt út úr auglýsingabæklingi fyrir Afríkuferðir. Dagurinn byrjaði vel, sáum stóra fílahjörð vökva sig við vatnsból rétt hjá bílnum. Yndislegt að sjá litlu fílsungana sprauta hver á annan í hitanum. Mikla athygli vakti í konubílnum þegar karlfíllinn tók út tólið til að spræna og reyndist það stærra en nokkuð annað tól sem við höfum séð og erum þó ýmsu vanar... . Við reyndumst ótrúlega heppin þegar við komum að blettatígur sem lá rétt við slóðann og hafði nýlega drepið antílópu sem hann var að gæða sér á. Þetta reyndist ótrúleg sjón og vorum við öll bergnumin. Jafnvel mátti sjá tár á hvarmi hjá Mama Masai. Sáum einnig töluvert af gíröffum ásamt ótal öðrum dýrategundum. Eftir brottför úr þjóðgarðinum var stoppað í Masaí þorpi þar sem verslaðir voru skartgripir af innfæddum auk þess sem við fengum að kíkja inn í Masaí moldarkofa. Það reyndust engar spanhellur þar, en fólkið var mjög almennilegt og allir virðast hafa nóg að bíta og brenna á þessum slóðum. Eftir komu okkar til Arusha var farið á markað að kaupa bakkaskraut, búninga og fleira. Erum öll að verða nokkuð sjóuð í prúttinu og gekk heilmikið á og allir gengu sáttir frá samningaborðinu að lokum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2009 | 18:43
Hakuna Matata
JAMBO!! Tarangire þjóðgarðurinn er ósnortin náttúruperla. Garðurinn rúmar fleiri fíla á hvern ferkílómetra en nokkur annar staður á jarðkringlunni. Þar fyrirfinnst einnig fjöldi annarra dýra. Sem dæmi um þau dýr sem við sáum voru gírafar,(twigg) fílar(tempo), antilópur(swala pala) ljón,(simba) blettatígur(duma) buffalóar,(nyatt) flauelisapar, bavíanar, strútar, sebrahestar,(pundamilja) ótal skrautfuglar, hrægammar, vörtusvín(pumba) og svo má lengi telja. Sagan sýnir að landkönnuðir og þrælakaupmenn notuðu svæðið sem samgönguæð. Fáir settust að á svæðinu aðallega vegna hinnar illskæðu flugu "tsetse" sem ber með sér svefnsýki. Rannsóknir frá 1950-1960 sýndu mikilvægi svæðisins fyrir villt líf á þurrkatímabilinu. Svæðið var gert að þjóðgarði um 1970 og varð með því fimmti þjóðgarður Tansaníu frá sjálfstæði landsins 1961.
Við lögðum upp frá hótelinu í Arusha á tveimur "Safarí-Landcruiser" bílum. Kynjaskipt var í drossíurnar samkvæmt stefnu kenndri við Hjalla. Við keyrðum af stað og það var mikið var "æ-jað og óað" og "sjáið þið þetta" enda ótal Masaí þorp á leiðinni. Þau samanstanda af nokkrum leirkofum og mannfólki vafið inn í afar litskrúðug teppi þar sem allir karlmenn 4ra+ eru með prik í hendi. Komum í garðinn, þar sem borðað var örlítið nesti. Tók nú við eitt allsherjar ævintýri þar sem spennan var mikil en pípulögnin misgóð hjá mannskapnum, "shit HAPens". Fyrstu dýrin sem urðu á vegi okkar voru pundamilja (sebrahestar) og fílar, ósköp rólegir í tíðinni í sínu náttúrulega umhverfi. Sáum flestar þær dýrategundir sem fyrirfinnast í skóginum en hápunktinum var náð þegar við keyrðum fram á stóra ljónahjörð með þrjá unga þar sem þau lágu í mestu makindum í skuggsælu rjóðri. Komu þá ekki stóru geðillu flugstjórarnir... nei ég meina fílarnir og spilltu friðinum. Yfirkerlingin með mánaðargamlan ungann sinn tók til sinna ráða, gaf frá sér ótrúlegt öskur og stappaði niður fæti. Greinilegt hver var númer eitt á staðnum! Auðvitað hlýddu ljónin og færðu sig um set. Fyrir okkur var þetta ótrúlegt augnablik... en kannski var þetta bara eins og hver annar dagur í skóginum! Svona leið dásemdardagur á gresjum Afríku þar til við keyrðum í hlað á Soba Lodge þar sem brosandi starfsfólkið tók á móti okkur með köldum klútum og frískandi drykk. KARIUBU SANA. Eins og sönnu flugfólki sæmir var samið um betra verð gegn því að tvímenna í herbergi. 5 konur/5 karlar...hmhm hvernig leysum við það. Hr hrota og frú hósti fengu sérherbergi á meðan Linda og Tobba tóku "Honeymoon", Björg og Kara fóru í rómantíska stjórnuskoðun, Siggi og Halli bökuðu vandræði og Haddi og Gunni "bonduðu" sem aldrei fyrr. Eftir stutta sturtu mættu allir í smá "pre-drink" við sundlaugarbakkann og horft var á sólsetrið. Trúnaðarlæknir Icelandair hafði samband við Mama Masai (öðru nafni Björgu) og mælti með Kínin meðferð fyrir liðið. Borðað var 3 rétta, nema hvað einn þoldi aðeins kjúklingasoð, sem virtist gera gott þar sem viðkomandi mætti fílefldur í morgunsárið á degi tvö... búin að fá málið aftur okkur hinum til mikillar gleði. Setjum inn stórkostlegar myndir á morgun... svo ekki fara langt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2009 | 19:02
Addis - Shalam!!
Kæru vinir og vandamenn!
Lánið lék við okkur þegar við nældum í bílstjórann Alex sem keyrði okkur um borgina. Á dagskrá var að kaua bakkaskraut og nýjan einkennisfatnað á okkur.
Á þessum slóðum er ekkert keypt án þess að prútta, okkur tókst vel upp og verðið var lækkað um allt að 70%.Ætli Hirti aðal prúttara úr síðustu ferð hafi gengið svo vel...?
Fólkið hér er einstaklega fallegt, með araba- og afríku blóð í æðum, súkkulaði brúnt, hátt og tignarlegt ásamt því að vera afar kurteist og hjálpsamt.
Við gerum okkur grein fyrir lánsemi okkar þegar við sjáum fátæktina og eymdina sem óneitanlega varð á vegi okkar í miðbænum.
Eftir komu á hótel og að sjálfsögðu öll ánægð með kjarakaupin þá var skundað á garðbarinn og rann ískaldur eþípópíski bjórinn ljúflega niður. Okkur var þó ekki til setunnar boðið, tíminn var naumur þar sem sturta og snyrting tekur sinn tíma.
Auður mátaði nuddbekinn, fékk steinanudd og endurnærðist!
Okkar beið boð hjá A&K á Sheraton hótelinu og var það hið glæsilegasta. Þegar við keyrðum niður brekkuna var haft á orði að þetta hlyti að vera forsetahöllin sem við höfðum fyrir augum...en nei nei þetta reyndist vera flottasta hótelið í álfunni. Þar fengum við tækifæri til að kynnast farþegunum okkar betur. Enduðum með hin ýmsustu boð í hinum ýmsustu fylkjum bandaríkjanna.
Skriðum sátt og sæl í koju enda krefjandi og spennandi ferðalag á morgun.
Addia Ababa- KilimanjaroEftir góðan morgunmat á hótelinu var lagt af stað út á völl þremur og hálfum tíma fyrir brottför. Allur er varinn góður. Kynntumst hraða Afríkubúa svo ekki sé meira sagt. Allir lögðust á eitt, allt klárt, en ... hvar var cateringin, togtrukkurinn og allt hitt? Sumsstaðar virðast þeir Bakkabræður hafa fjölgað sér, Gísli, Eiríkur, Helgi. ...Við biðum og við biðum og við biðum. Loksins var vélin komin á sinn stað, áhöfnin glæsileg í nýju einkennisfötunum og farþegarnir komnir. Ljósin á af stað...drýfa sig!! Flugtíminn rétt tæpur Glasgowtími og veitingarnar 3 rétta máltíð. Enn og aftur slógu kokkarnir/maturinn í gegn, svo ekki sé minnst á Gunna. Aumingja Gunni fær engan frið til að sinna sínu starfi. Sígaggandi freyjurnar senda flugvirkjann með brauðið, drykkina svo ekki sé minnst á tiltektina. Eftir lendingu bíður hans ærinn starfinn, hann stendur sig sem sönn hetja. Líkt og í ríkisstjórninni er hér jöfn kynjaskipting 5/5. Verkstýran stendur sig með afbrigðum vel, öllu reddað... bara að Jóhönnu gangi jafn vel með sitt lið. Öllum ráðherrum- og stýrum í stjórn Frú Jónasdóttir ber saman um að aldrei hafi fyrirfundist jafn hentungur og þægilegur einkennisfatnaður. Reyndar þurftu skessurnar allar að gera nánast hnéháar klaufar beggja megin á skósíða kjólana. Þær eru víst fremur stórstígar og strunsandi að eðlisfari. ...eða er það kannski bara íslenska flugfreyjuuppeldið? Svona drífa sig!!
Hér eru það hinsvegar hugguleg- og glæsilegheitin sem ráða ferðinni.
Linda hékk á hornunum í dag. Er við nálguðumst miðbaug tlkynnti hún farþegunum að brátt væri tilefni til að skála, innan tíðar yrði farið yfir miðbaug. Með Lindu við stýrið tók TF- FÍA fagmannlega sveiflu. gestirnir brostu, skáluðu í staupi af Madeira og það sem þeir mynduðu. Sem fyrr fengu allir í áhöfninni að njóta sín. Lífið er yndislegt....safarí á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2009 | 10:10
Don't catch a leopard by the tail, but if you do don't let it go!! (ethiopiskur malshattur)
Þá erum við komin í vöggu drottningarinnar af Saba, Addis Ababa. Hafsteinn flugstjóri stýrði okkur öruggum höndum yfir sandkassan stóra og brá aldrei skugga á enda Sahara þekkt fyrir endalaust sólskin. Leiðangursstjórinn sá um almannatengsl og mætti í kafteinskvöldverð í safarý stuttbuxum og með hvíta hanska. Gunnar var óstöðvandi í eldhúsinu en því miður fór allt í vaskinn sem að endaði með stórri stíflu sem ekki er enn útséð um. Sem fyrr skorti ekki mat og drykk um borð. Boðið var upp á tvær máltíðir á leiðinni og samanstóð hvor um sig af 4 réttum. Siggi og Halli Siggi Hall toppuðu sig í grænu súpunni sem minnti á úrgang úr Kermit the frog eftir að hafa endað á flestum öðrum stöðum í eldhúsinu en súpuskálunum. Mátti ekki tæpara standa að flugtíminn dygði til að klára þjónustuna, þó flugið hefði staðið í yfir 8 tíma. Getið þið hægt eitthvað á ykkur (Kara), hmmmm duga 6 mínútur? (Hafsteinn). Fullbókað var í Sky lounge og góð stemmning.Tobba fór í læknisleik í aftara eldhúsi, lét sólarvörn ekki duga heldur þurfti 12 sprautu til að verja drottninguna gegn flugnabiti og ágangi annara skriðdýra. Auður aðstoðaði við aðgerðina og sá um að allt væri dauðhreinsað áður en aðgerðin hófst. Kara sá um að engin þjáðist af vökvaskorti um borð enda stjórnar hún algerlega neyslu drykkja í fremra rými og rímar allt um borð eftir að hún tók að sér þetta hlutverk. Linda var aðstoðarmanneskja í stjórnrými í dag og bar ábyrgð á talstöðvarsamskiptum á hinum ýmsu tungumálum auk þess að sinna eftirliti með flugstjóra dagsins og vera vefstjóri vá þvílíkt álag. Eins gott að paradís á jörðu er handan við hornið.Að öllu gamni slepptu gekk allt eins og í sögu, þó auðvitað væru álagspunktar. Farþegar og ekki síst áhöfn gengu alsæl frá borði. Lífið er yndislegt!! Eftir erfidan en anaegjulegan dag var okkur bodid i fria danskennslu i Danskola Koru og gengu tvi allir sattir og saelir til hvilu. N.b. Ekkert gsm-samband amk næstu daga kæra fjölskylda og vinir. Inshalah, Shalam Alaikum!!!
Eþiópía Addis Ababa
Eþíópía er 1.133.882 km2 að flatamáli og á landamæri að Erítreu í norðri, Sómalíu í austri, Kenýa í suðri og Súdan í vestri.
Höfuðborgin Addis Ababa (nýja blómið) er í landinu miðju.
Stærð og lega landsins nú á dögum er m.a. afleiðing afskipta Evrópumanna á 19. og 20. öld í álfunni.
Árið 1935-36 lagði fasistastjórn Mussolinis Eþíópiu undir sig en bandamenn leystu landið undan yfirráðum Ítala. Eþíópía var meðal fyrstu ríkja heims til að skrifa undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna .
Orðspor Eþíópíu skaðaðist verulega á alþjóðavettvangi í valdatíð Derg (1974 91) en hann færði óáran borgarastyrjaldar og hungursneyðar yfir landið. Ástandið hefur verið óstöðugt frá því stríðinu lauk og framtíð þess enn óljós. Íbúar Eþíópíu eru mjög ólíkir innbyrðis. Amharíska var það tungumál sem notað var við grunnskólakennslu en nú hafa ýmis staðbundin tungumál tekið við. Enska er kennd sem fyrsta erlenda tungumálið.
Íbúafjöldi er tæplega 70 milljónir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
FI-1446
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar